Börn og andlegt ofbeldi

Andlegu heilbrigði barna þarf að hlúa að til að byggja upp sterka einstaklinga með trú á sjálfum sér og jákvæða sjálfsmynd. Í Aðalnámskrá leikskóla er skýrt tekið fram að heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan og er skólum skylt að hlúa að og þroska heilbrigði frá ýmsum hliðum. Helstu þættir heilbrigðis sem skola eiga að leggja áherslu á eru m.a. jákvæð sjálfsmynd, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi og skilningu á eigin tilfinningum og annarra (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 21). Þessu þurfa kennarar að fylgjast með og vera meðvitaðir um andlega líðan þeirra barna sem þeir vinna með. Andlegt ofbeldi í garð barna getu verið erfitt að greina en til að átta sig á hvað felst í andlegu ofbeldi er hægt að líta til skilgreininga og umfjöllunar ýmissa fræðimanna. Hér á eftir verður gerð grein fyrir nokkrum lykilhugtökum.

Í bók Miller-Perrin og Perrin, Child Maltreatment segir að margir hafi reynt að setja niður ákveðna lýsingu á því hvernig andlegt ofbeldi lýsi sér. Samkvæmt því sem þar kemur fram hafa Hart, Brassard og Karlson sett fram þá skilgreiningu að andleg vanræksla/ofbeldi sé: þegar endurtekið hegðunarmynstur sem gefur barni til kynna að það sé einskis virði, ástlaust, óumbeðið, einungis samþykkt ef það uppfyllir þarfir annarra eða því sé alvarlega ógnað með líkamlegu og/eða andlegu ofbeldi (bls. 189). Þessi skilgreining er að okkar mati góð og segir í raun í fáum orðum hvað andlegt ofbeldi er. Fleiri hafa lagt sitt af mörkum og á meðal fagfólks er mikil umræða um hvernig greina eigi andlegt ofbeldi; sumir eru t.d. þeirrar skoðunar að andlegt ofbeldi nái yfir allt ofbeldi í garð barna og vanrækslu (Miller-Perrin og Perrin, 2013, bls. 189).

Á Íslandi er andlegt og/eða tilfinningalegt ofbeldi greint á þann hátt að þegar barn er móðgað, uppnefnt og komið fram við það á ómanneskjulegan hátt er það andlegt ofbeldi. Ef barnið býr við stanslausa gagnrýni og niðurbrot af hálfu foreldra eða umsjónarmanns er það andlegt ofbeldi (Ólöf Ásta Farestveit og Þorbjörg Sveinsdóttir, 2013, bls.40). Einnig felst í andlegu ofbeldi að hafna barni eða einangra það, niðurlægja, hunsa, binda það niður eða loka inni eða í annarri hegðun foreldris eða umsjónaraðila sem getur valdið sálrænum skaða (Guðrún Kristinsdóttir og Nanna Kristín Christiansen, 2014, bls. 21). Andlegt ofbeldi getur þó verið erfitt að greina þar sem það er sjaldan eina form ofbeldis sem barn þarf að líða.

 

Heimildir:

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2011). Aðalnámskrá leikskóla. Sótt af:

https://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/nr/3952

 

Miller–Perrin, C.L. og Perrin, R.D. (2013). Child Maltreatment. An Introduction.

California: Sage.

 

Ólöf Ásta Farestveit og Þorbjörg Sveinsdóttir. (2013). Verndum þau. Hvernig

bregðast á við grun um vanrækslu eða ofbeldi gegn börnum og unglingum.

Reykjavík: Mál og menning.

 

Guðrún Kristinsdóttir og Nanna Kristín Christiansen. (2014). Ofbeldi gegn börnum

hlutverk skóla: Handbók fyrir starfsfólk. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Bloggaðu hjá WordPress.com.

Upp ↑

%d bloggurum líkar þetta: