Börn og kynferðislegt ofbeldi

Börn eru almennt forvitin og hafa rannsóknir sýnt að börn eru forvitin um kynlíf og taka þátt í kynferðislegum athöfnum í bernsku. Algengar athafnir eða kynferðislegar hegðun hjá börnum á aldrinum 2-6 ára er t.d. að kyssa fólk sem ekki er innan fjölskyldunnar, fylgjast með öðrum afklæðast, afklæðast fyrir framan aðra, sýna öðrum kynfæri sín, snerta kvenmannsbrjóst, snerta kynfæri eða fróa sér. Kynferðisleg hegðun heldur áfram hjá börnum á miðbernsku og eldri börnum þó svo að foreldrar taki ekki eins mikið eftir því. Þær athafnir sem börnin framkvæma á aldrinum 7-10 ára og 11-12 ára eru líkar því sem lýst er hér að ofan, svo sem að horfa á fólk afklæðast, snerta kynfæri, fróa sér, þukla á kynfærasvæði og sýna kynfæri sín öðrum börnum. Auk þess taka börn á miðbernsku oft þátt í kynferðislegum leikjum við nána vini sína. Eftir því sem börnin eldast færist í aukana tal um kynlíf, kossa og faðmlög, að skoða klámmyndir, kynferðisleg stríðni og áhugi á öðru fólki (Miller-Perrin og Perrin, 2013, bls. 97-98). Allt þykir þetta eðlilegt og er það hlutverk kennara sem og foreldra að fara með þessa forvitni og kenna börnunum muninn á því hvað þykir viðeigandi og hvað ekki.

Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum kemur reglulega kemur upp og heyrum við fréttir af því í fjölmiðlum. Tölur Barnaverndarstofu sýna að árið 2016 komu 319 tilkynningar inn á borð barnaverndarnefnda vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi gegn stúlkum og 133 tilkynningar vegna drengja (Barnaverndarstofa, 2017, bls. 8). Þessar tölur styðja við þær rannsóknir sem sýna að stúlkur eru í miklum meirihluta fórnarlamba kynferðisafbrota. Þegar grunur leikur á um kynferðisofbeldi sér Barnahús um að taka rannsóknarviðtöl. Rannsóknarviðtölin skiptast í skýrslutökur fyrir dómi annars vegar og könnunarviðtöl fyrir barnaverndarnefndir hins vegar. Árið 2016 fækkaði skýrslutökum vegna kynferðislegs ofbeldis frá árinu á undan úr 77 í 60 (Barnaverndarstofa, 2017, bls. 3). Þar sem ekki er búið að gefa út ársskýrslu Ríkissaksóknara fyrir árið 2016 er ekki hægt að sjá hversu mörg þessara mála hafa farið fyrir dóma. Þó má sjá í ársskýrslu frá 2015 að af þessum 77 málum sem Barnahús tók skýrslur af fóru 54 mál fyrir Ríkissaksóknara. Af þessum 54 málum voru níu mál felld niður, í níu málum var ákært en um áramót 2015 var 35 málum enn ólokið (Ríkissaksóknari, 2015, bls.18).

 

Heimildir:

Barnaverndarstofa. (2017). Samanburður á fjölda tilkynninga til

barnaverndnarnefnda og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2014-2016. Sótt af: http://www.bvs.is/barnaverndastofa/tolulegar-upplysingar/

 

Ríkissaksóknari. (2015). Tölfræði ákæruvaldsins 2015. Sótt af:

http://www.rikissaksoknari.is/utgefid-efni/arsskyrslur/

 

Miller–Perrin, C.L. og Perrin, R.D. (2013). Child Maltreatment. An Introduction.

California: Sage.

Bloggaðu hjá WordPress.com.

Upp ↑

%d bloggurum líkar þetta: