Börn og líkamlegt ofbeldi

Líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum hefur ætíð verið staðar óháð menningu en á Íslandi þóttu líkamlegar hirtingar ásættanlegar við að aga börn. Árið 1746 var gefin út „Tilskipan um húsagann á Íslandi“ en þar var gert ráð fyrir líkamlegum hirtingum gagnvar börnum ásamt andlegri ögun (Jónína Einarsdóttir ofl. 2004).

Sem betur fer í dag eiga börn sín réttindi og á Íslandi eru í gildi barnalög og barnaverndarlög auk þess sem Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur hér á landi 2013. Samfélagið þarf að vernda börnin gegn ofbeldi því ljóst er að það getur sett mark sitt á allt líf fólks sem verður fyrir því. Í bók Miller-Perrin og Perrin, Child Maltreatment segir að nýlegar rannsóknir hafi sýnt fram á að börn og fullorðnir sem hafi orðið fyrir líkamlegu ofbeldi séu líkleg til að þróa með sér andlega erfiðleika á borð við illvígt þunglyndi, áfallastreituröskun og skaðlega hegðun. Einnig er þessi hópur líklegri til að fremja glæpi, sýna andfélagslega hegðun og nota fíkniefni (bls. 82). Líkamlegt ofbeldi getur verið erfitt að greina þar sem áverkar hverfa oft fljótt auk þess sem gerendur líkamlegs ofbeldis reyna að hafa áverkana ekki sýnilega eða þess eðlis að þeir gætu verið af eðlilegum orsökum (Ólöf Ásta Farestveit og Þorbjörg Sveinsdóttir, 2013, bls 33).

Jónína Einarsdóttir o.fl. nefna í bók sinni (2004) að afleiðingar líkamlegs ofbeldis geta verið alvarlegar. Til að mynda geta börn sem alast upp við ofbeldi bæði orðið gerendur og þolendur eineltis, þau eru líklegri til að vera þunglynd og tilraunir til sjálfsvígs og sjálfsvíg geta einnig verið afleiðing þess. Einnig vitna þau í skýrslu eftir Sigurð Rafn þar sem kemur fram að „vanræksla og misnotkun á börnum, þ.m.t. andleg, líkamleg og kynferðisleg misnotkun, eru áhættuþættir sjálfsvígshugsana sem geta leitt til sjálfsvíga, sjálfsmeiðinga og/eða alvarlegra geðrænna fatlana. Á árunum 2001–2002 var 71% stúlkna sem komu inn á Barna- og unglingageðdeildina fórnarlömb hvers kyns ofbeldis og vanrækslu og 52% drengja“ (Jónína Einarsdóttir o.fl., 2004, bls. 42-43). Ef horft er til nýrri heimilda má sjá af tölum Barnaverndarstofu að tilkynningum vegna ofbeldis fer fjölgandi. Árið 2014 voru tilkynningar til barnaverndar vegna líkamlegt ofbeldis 471. Árið 2015 fjölgaði tilkynningum upp í 490 en árið 2016 voru tilkynningar 574 (Barnaverndarstofa, 2017, bls. 8). Þessar auknu tölur eru töluvert áhyggjuefni og ef horft er til tilkynninga eftir kyni renna þær stoðir undir þær rannsóknir sem sýnt hafa að drengir eru líklegri til að vera fórnarlömb líkamlegs ofbeldis. Árið 2016 voru tilkynningar vegna líkamlegs ofbeldis í garð drengja 323 á móti 251 vegna stúlkna (Barnaverndarstofa, 2107, bls 8).

 

Heimildir:

Jónína Einarsdóttir, Geir Gunnlaugsson, Sesselja Th. Ólafsdóttir, & Halldór

Pétursson. (2004). Heimilisofbeldi gegn börnum á Íslandi : Höggva-hýða-hirta-hæða-hóta-hafna-hrista-hræða. Reykjavík: Gutenberg.

 

Miller–Perrin, C.L. og Perrin, R.D. (2013). Child Maltreatment. An Introduction.

California: Sage.

 

Ólöf Ásta Farestveit og Þorbjörg Sveinsdóttir. (2013). Verndum þau. Hvernig

bregðast á við grun um vanrækslu eða ofbeldi gegn börnum og unglingum.

Reykjavík: Mál og menning.

 

Barnaverndarstofa. (2017). Samanburður á fjölda tilkynninga til

barnaverndnarnefnda og fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á árunum 2014-2016. Sótt af: http://www.bvs.is/barnaverndastofa/tolulegar-upplysingar/

 

Bloggaðu hjá WordPress.com.

Upp ↑

%d bloggurum líkar þetta: